Ferill 260. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1992. – 1062 ár frá stofnun Alþingis.
116. löggjafarþing. – 260 . mál.


341. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um útflutning hrossa, nr. 64/1958, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 116. löggjafarþingi 1992.)



1. gr.


    4. málsl. 3. gr. laganna orðast svo:
     Landbúnaðarráðherra ákveður þóknun fyrir skoðun hrossanna og eftirlit með útflutningnum og greiðist hún af eigendum hinna útfluttu hrossa.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


     Kostnaður við skoðun útflutningshrossa og eftirlit með útflutningnum hefur um nokkurt skeið verið greiddur af eigendum hrossanna þrátt fyrir ákvæði 3. gr. laga nr. 64 26. nóvember 1958, með síðari breytingum, um að ríkissjóður greiði þann kostnað. Frumvarpið gerir ráð fyrir að gildandi ákvæði sé breytt til samræmis við þá framkvæmd sem skapast hefur.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um útflutning


hrossa, nr. 64/1958, með síðari breytingum.


    
Í frumvarpinu er kveðið á um að eigendur útfluttra hrossa skuli greiða fyrir skoðun hrossanna og eftirlit með útflutningnum. Frumvarpið hefur ekki í för með sér breytingar á útgjöldum ríkissjóðs þar sem einungis er verið að leggja til að lögfesta þá framkvæmd sem skapast hefur en eigendur útflutningshrossa hafa greitt þennan kostnað um nokkurt skeið.